Viktor varði tæplega helming þeirra skota sem Ólympíumeistararnir komu á markið, framhjá frábærri vörn Íslands, og fór á kostum allan leikinn. Fann hann það fyrir leik að hann yrði góður í kvöld?
„Ég fann það eftir svona þrjá bolta af tíu. Þá kemur sjálfstraustið. Ef maður fær 2-3 létta bolta í byrjun þá kemur þetta fljótt í gang,“ sagði Viktor sem var greinilega mjög vel stemmdur en viðtalið við hann má sjá hér að neðan:
„Elliði [Snær Viðarsson] sagði mér að vera reiður, fyrir leikinn. Ég var svolítið reiður. Ég vildi sanna sjálfan mig. Sýna öllum hvað ég get,“ sagði Viktor en íslensku markverðirnir höfðu átt slæman dag gegn Dönum á fimmtudaginn og Viktor vildi bæta upp fyrir það.
„Þetta var erfiður leikur á móti Danmörku og reyndi mikið á. En svo er það bara næsti leikur. Það er það fallega við þetta sport. Maður getur ekki dvalið of lengi við lélega eða góða leiki. Það þarf bara að fókusa á næsta leik,“ sagði Viktor sem naut sín vel í stemningunni í Búdapest:
„Við vorum kannski ekki mörg í stúkunni en það heyrðist mjög vel í okkur. Á endanum fengum við líka alla höllina með. Ungverjarnir og Danirnir sérstaklega voru farnir að fagna með okkur. Þetta var geggjað.“