Umræðan

Umboðsádrepa

Ólafur Sigurðsson skrifar

Í stuttu viðtali við Innherja gerðist ég sekur um að búa til strámann og þyrla upp ryki sem er auðvitað ekki gott innlegg í málefnalega rökræðu. Rökræða er til bóta og það er vissulega betra að eiga hana við raunverulega manneskju með skoðun. Innherji tók fjárfestingarstefnu Birtu til umfjöllunar í byrjun árs og mér til undrunar rakst ég á tengda umræðu sem hafði farið fram hjá mér sem ég vildi tala inn í. Það heppnaðist ekki betur en svo að Ársæll Valfells efast enn um umboð stjórnar Birtu og setur spurningamerki við eitt og annað, efast meðal annars um hollustu mína við sjóðfélaga.

Spurningunni um hvort ég hafi lesið þá grein sem ég vísaði sjálfur til þá er því fljótsvarað játandi. Það sem meira er þá er ég sammála því sem Ársæll nefnir til en ósammála túlkun hans á þeim rökum.

Greinin var ástæðan fyrir því að ég lét hafa eftir mér að ég teldi réttara að stjórnum lífeyrissjóða væri gert skylt að skilgreina siðferðileg viðmið eins og lög kveða á um í dag, en ekki löggjafans. Mér er reyndar til efs að kaup á grænu skuldabréfi flokkist yfir höfuð undir siðferðilega spurningu enda eru kjör slíkra bréfa í samræmi við ítarlega skilmála og einna helst að útgefendur kvarti undan því að fá ekki afslátt fyrir græna litinn.

Við erum sannfærð um að okkur muni takast að hækka hlutfall eigna sem teljast umhverfissjálfbær úr 2,8 prósent í 8,0 prósent fyrir lok árs 2030 en auðvitað er vont að viljayfirlýsing um norrænt samstarf í þeim efnum valdi áhyggjum málsmetandi lektors við Háskóla Íslands.

Ekki rök að viðmiðin séu matskennd

Sjónarmiðið sem vísar til þess efnis að bandaríska fjármálaeftirlitið hafi ekki tekið afstöðu til UFS upplýsinga er upplýsandi en gagnast mér lítið. Stjórnvöld áforma að gera lífeyrissjóðum sem öðrum á fjármálamarkaði að flokka eignir í samræmi við flokkunarreglugerð og birta upplýsingar á þeim grunni. Reglugerð sem ætlað er að koma í veg fyrir grænþvott. Það fylgir því engin önnur kvöð en að birta upplýsingar sem mark er takandi á. Það er mikilvægt því allri umbreytingu fylgir froða og það verða ekki allir vænir þó þeir segist vera grænir. Vonandi verða þessi skoðanaskipti til þess að skerpa skilning sjóðfélaga á því málefni.

Hvorki mér, stjórn eða starfsfólki Birtu vantar heilbrigðisvottorð til að skreyta okkur með og af hverju ætti ég að vísa í ritrýnda grein án þess að hafa lesið hana. Það er réttmæt ábending að UFS viðmiðin eru matskennd en hvernig eru það rök í málinu. Eiga þá fjárfestar ekki að styðjast við verðmöt af því að þau geta verið matskennd? Umræðan um sjálfbæra hagnýtingu fiskistofna hófst löngu fyrir skipulagða UFS umræðu og við fjárfestum í sjávarútvegsfyrirtækjum þó kvótakerfið teljist ekki síður pólitískara en umhverfissjónarmiðin. Við getum miðlar fróðleik um sjálfbærni á því sviði í norrænu samstarfi og kannski minnst á hvernig við hagnýtum vistvæna orku. Tölulegt mat á stjórnarháttum er ekki skynsamleg nálgun en við veltum engu að síður fyrir okkur stjórnarháttum og það löngu áður en þeir urðu að G eða S í vinsælli skammstöfun.

Það er réttmæt ábending að UFS viðmiðin eru matskennd en hvernig eru það rök í málinu. Eiga þá fjárfestar ekki að styðjast við verðmöt af því að þau geta verið matskennd?

Greinarhöfundar benda réttilega á að UFS er matskennd nálgun og gjalda varúð við að taka aðferðafræðina upp í blindni, en af hverju ættu þeir að hafna mati á stjórnarháttum, auðlindastjórnun og samfélagsáhrifum. Stjórn og starfsfólki lífeyrissjóða er skylt að leggja persónulegt mat á forsendur og mestu máli skiptir að forsendur liggi fyrir þegar ákvörðun er tekin og að þær teljist skynsamlegar. Viðbótarupplýsingar eru til bóta í þeim efnum og við fáum orðið athugasemdir frá eftirlitsaðilum ef UFS matið er ekki skýrt hjá okkur.

Umboðsskyldan vel skilgreind

Tilvísun í skynsemisreglur í Bandaríkjunum eru sambærilegar skynsemisreglunni sem lögfest var árið 2016, tölusett í 36. gr. um inntak fjárfestingastefnu lífeyrissjóða. Samkvæmt 1. tl. er okkur skylt að hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi sbr. (e. sole interest) og samkvæmt. 3. tl. skulu allar fjárfestingar byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga. Illu heilli nota margir orðið varfærniregla sem er að mínu mati vond þýðing á enska orðinu (e. prudence) en ég ætla ekki að láta orðanotkun skemma skynsama umræðu. Í ljósi þess að skynsemisreglan telst vera í innleiðingu á Íslandi er okkur mjög hollt að rökræða inntak hennar og ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þegar þannig ber við og hugsa með tilhlökkun til þess að fara í hollustupróf hvernig sem það verður útfært.

Þá er ég sammála greinarhöfundum um freistnivandann sem felst í blönduðum áformum (e. mixed motives). Þess vegna er það tekið skýrt fram í lögum um lífeyrissjóði að þeim er einungis ætlað að taka við iðgjaldi, ávaxta það og greiða út lífeyri og því bætt við 20. gr. að þeim er ekki heimilt að inna af hendi framlög í öðrum tilgangi.

Umboðsskylda stjórna lífeyrissjóða er vel skilgreind að mínu mati og mér þykir það miður að Ársæll telji að í fjárfestingastefnu Birtu felist blönduð áform og umboðsvandi. Fjárfestingastefna Birtu er skrifuð fyrir sjóðfélaga, til að kalla fram umræðu og það er sjálfstætt fagnaðarefni að hún skuli vera í kastljósinu.

Fjárfestar gefist ekki upp

Að endingu er það spurning Ársæls hvort ég búi yfir upplýsingaforskoti. Fyrir ykkur sem eruð enn að lesa þá er svar mitt nei eins og ég skil spurninguna. Upplýsingarnar sem ég byggi á eru öllum aðgengilegar og í mínum huga snýst málið um hæfnina til að vinna úr þeim og setja í samhengi. Það væru stærilæti að eigna mér það einum, sjóðstjórar Birtu sem mynda fjárfestingaráð og ekki síður stjórn eiga þann heiður meira skilið en ég.

Í ljósi þess hvað það er leiðinlegt að skrifast á í þriðju persónu velti ég því fyrir mér hvort Ársæll er ekki bara til í opna umræðu um málið? Er ekki hægt að setja upp málstofu í HÍ til að ræða svona mál?

Hvað vísitöluvæðinguna varðar vona ég að rökræðan um að sigra markaðinn leiði ekki til þess að fjárfestar gefist upp. Ef allir gera það er engin skoðun og engin verðmyndun, bara vísitala. Sjóðfélagar þurfa þó ekki að bíða til næsta sjóðsfélagafundar eftir rökstuðningi okkar fyrir umhverfissjálfbærum fjárfestingum, því það er skýrt tekið fram í fjárfestingarstefnu á blaðsíðu 16 að sjóðurinn hyggst ekki blanda sínum áformum og veitir ekki afslátt á áhættuleiðréttri arðsemi við val á fjárfestingum. Við hyggjumst svo birta þessar eignir árlega og þá getum við reglulega metið það hvort farið var á svig við umboðið og þannig á það að vera.

Í ljósi þess hvað það er leiðinlegt að skrifast á í þriðju persónu velti ég því fyrir mér hvort Ársæll er ekki bara til í opna umræðu um málið? Ég tel þessa umræðu til bóta og mjög þarfa. Er ekki hægt að setja upp málstofu í HÍ til að ræða svona mál?

Höfundur er framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs.


Tengdar fréttir

Umboðsskylda á pólitískum tímum

Fáum dylst að nú er COP26 nýlokið sem er ráðstefna 197 landa sem hafa undirgengist sáttmála á vegum Sameinuðu þjóðanna sem hefur að markmiði að „Preventing “dangerous” human interference with the climate system.“

Lífeyrissjóðir ætla ekki að gefa neinn afslátt til að fylla græna kvótann

Stjórnendur hjá lífeyrissjóðunum Gildi og Stapa segja að ekki verði slakað á neinum kröfum sem sjóðirnir gera til fjárfestingakosta til þess að fylla upp í kvóta fyrir grænar fjárfestingar. Útlit er fyrir að meirihluti grænna fjárfestinga lífeyrissjóða verði í gegnum erlenda sjóði enda felst áhætta í því að mikið fjármagn elti takmarkaðan fjölda grænna fjárfestinga á Íslandi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.