Þetta hefur Vísir eftir traustum heimildum en Reykjavíkurdætur vildu ekki staðfesta þetta þegar blaðamaður náði tali af einni þeirra í gær. Sveitin hefur notið mikilla vinsælda, bæði hér á Íslandi og erlendis, en þær hafa verið starfandi í tæpan áratug.
Undankeppni söngvakeppninnar verður haldin dagana 19. og 26. febrúar og úrslitakeppnin 5. mars þar sem framlag Íslands í Eurovision verður valið. Eurovision-keppnin sjálf fer fram í Torino á Ítalíu í maí.
Samkvæmt frétt á RÚV frá því í desember voru alls 158 lög send inn í Söngvakeppnina í ár en ráðgefandi valnefnd og framkvæmdastjórn keppninnar valdi tíu lög af þessum 158 til að keppa.
Lögin tíu sem taka þátt verða kynnt í sjónvarpsþætti á RÚV 5. febrúar og verða gerð aðgengileg á helstu tónlistarveitum.